About Alma Rut in English here!
Alma Rut hefur sungið með mörgum af þekktustu tónlistarmönnum landsins síðastliðin ár.
Hún hefur sungið inn á fjölmargar plötur, á ótalmörgum tónleikum, dansleikjum, brúðkaupum, jólahlaðborðum, árshátíðum, sjónvarpsþáttum, sungið og leikið í teiknimyndum og söngleikjum og komið fram við hin ýmsu tilefni.
Henni finnst gaman að syngja í mismunandi stílum, t.d. rokk, popp, kántrý, blús, jazz o.fl.
Alma Rut er meðlimur í þremur hljómsveitum:
Hún hefur verið hluti af stórhljómsveitinni TODMOBILE síðan 2009. Síðastliðin ár hefur bandið fengið til sín frábæra gesti og spilað með þeim í Hörpu og Hofi, þá Jon Anderson, söngvara Yes, Steve Hackett, gítarleikara Genesis og eitís goðsögnin Nik Kershaw. Aðrir meðlimir Todmobiler eru þau Andrea Gylfadóttir, Eyþór Ingi, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, Eiður Arnarsson, Kjartan Valdemarsson og Ólafur Hólm.
Hún er líka söngkonan í popp-rokk-kántrýhljómsveitinni VESTANÁTTIN, en fyrsta plata þeirra kom út sumarið 2015. Meðlimir Vestanáttarinnar eru Guðmundur Jónsson lagasmiður og gítarleikari, oftast kenndur við Sálina, Eysteinn Eisteinsson á trommum, Ólafur Þór Kristjánsson á bassa og Jóhann Ingvason á hljómborð og hammond.
Einnig er hún í ball-hljómsveitinni ALASKA, en þau sérhæfa sig í að spila á böllum, árshátíðum, veislum og í raun við hvaða tilefni sem er. Meðlimir Alaska eru Ingólfur Sigurðsson trommuleikari, Ólafur Þór Kristjánsson bassaleikari og Davíð Sigurgeirsson gítarleikari.
Alma hefur komið fram á óteljandi mörgum stórum tónleikum, bæði í röddum og sem einsöngvari.
Hún hefur sungið á stórtónleikum Bó & Bubba, jólatónleikum Heru Bjarkar, jólatónleikum Siggu Beinteins fl. og unnið með hljómsveitunum Sálinni hans Jóns míns, Pöpunum, Í svörtum fötum, Vinum vors & blóma, Stuðkompaníinu, Spútnik, hljómsveitinni VON og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Hún hefur unnið í mörgum verkefnum hjá Rigg, t.d. AC/DC tónleikasýningu, heiðurstónleikum Freddie Marcury, afmælistónleikum Friðriks Ómars, heiðurstónleikum Vilhjálms Vilhjálmssonar og Elvis Presley tónleikum.
Alma hefur líka sungið á nokkrum Pink Floyd tónleikum með Dúndurfréttum, söng-dans-leik- og tónleikasýningunni Moulan Rouge hjá Forte, á nokkrum Rumours tónleikunum til heiðurs Fleetwood Mac, í Ísland Got Talent, Skonrokk tónleikasýningum, í fjölmörgum sýningum undir stjórn Gunnars Þórðarsonar, Evu Cassidy heiðurstónleikum með Jóhönnu Guðrúnu og í yfir 40 sýningum með Frostrósum.
Hún hefur sungið raddir í yfir 20 lögum í Söngvakeppni Sjónvarpsins og hefur tvisvar sinnum farið út í Eurovision og staðið á sviðinu fyrir Íslands hönd, árið 2012 í Azerbeijan og 2015 í Austurríki.
Alma hefur líka sungið og leikið í söngleiknum Hárinu og í teiknimyndunum Chicken Little, Kronks New Groove o.fl.
Alma Rut lærði söng í Tónlistarskóla FÍH og píanó og söng í Tónlistarskóla Akureyrar. Hún hefur farið á námskeið í Complete Vocal Tecnique söngtækni, kennt söng í Söngskóla Maríu Bjarkar síðan 2005 og einnig kennt í Meiriskóla Margrétar Eirar. Alma Rut hefur einnig verið í stjórn KÍTÓN, sem er félag kvenna í tónlist.
VERKEFNI og HLJÓMSVEITIR sem ALMA RUT hefur unnið með síðustu ár!